Jólakveðja

Við óskum starfsfólki okkar og viðskiptavinum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

360° Sýndarveruleikatúr um Drangey SK-2

Skipasmíðastöðin CEMRE hefur látið útbúa sýndarveruleika túr um Drangey SK-2. Í honum er hægt að skoða skipið frá mörgum sjónarhornum. Við mælum með að þeir sem gátu ekki skoðað skipið þann 19. ágúst skoði þetta. Efnið má skoða hér!

FISK Seafood kaupir Soffanías Cecilsson

Sameiginleg fréttatilkynning frá FISK Seafood ehf. og Soffaníasi Cecilssyni hf.

Samkomulag hefur verið gert um kaup Fisk Seafood ehf., sem er m.a  með starfsemi  í Grundarfirði og á Sauðárkróki um kaup á öllum hlutabréfum í Soffaníasi Cecilssyni hf., sem er með starfsemi í Grundarfirði. Samkomulagið er með fyrirvörum, m.a. um samþykki Samkeppniseftirlitsins.  Með þessu hyggst Fisk Seafood ehf. styrkja sig í sessi sem eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og treysta enn frekar fjölbreyttan rekstur í útgerð, fiskvinnslu og sölu sem byggst hefur upp á undanförnum árum.  Ef af kaupunum verður mun starfsemi félagsins skipulögð með það að markmiði að tryggja áframhaldandi öfluga starfsemi í Grundarfirði.

Soffanías Cecilsson hf. hefur frá stofnun verið með starfsemi  í Grundarfirði.   Það er mat eigenda félagsins að rétt sé og tímabært að koma fyrirtækinu í hendur aðila sem hefur það að markmiði að tryggja áframhaldandi öfluga starfsemi fyrirtækisins í Grundarfirði. 

Móttaka á Drangey SK-2

Það var mikill gleðidagur í Skagafirði á laugardaginn var, þann 19. ágúst, þegar tekið var á móti nýjum togara fyrirtækisins, Drangey SK-2 og áhöfn hans. 

Skipið sigldi af stað frá Tyrklandi föstudaginn 4. ágúst og tók því siglingin heim um hálfan mánuð. Mikið fjölmenni var saman komið þegar skipið kom í heimahöfn á Sauðárkróki. Það var hátíðleg athöfn á bryggjunni þar sem Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK Seafood ávarpaði gesti ásamt Þórólfi Gíslasyni kaupfélagsstjóra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra og Ástu Pálmadóttur sveitarstjóra Skagafjarðar. Sr. Sigríður Gunnarsdóttir sóknarprestur blessaði skipið og áhöfn þess og færði skipsstjóranum Snorra Snorrasyni biblíu að gjöf frá Sauðárkrókskirkju.

Það var svo Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem gaf skipinu nafnið Drangey. Það gerði hann í minningu föður síns, Stefáns Guðmundssonar, sem var forystumaður í sjávarútvegi í Skagafirði um langa hríð. 

Við viljum þakka öllum þeim sem samfögnuðu með okkur laugardaginn 19. ágúst fyrir komuna. 

Myndband frá heimkomu Drangeyjar SK-2.

 

Nafngift á Drangey SK-2

Laugardaginn 19. ágúst n.k. bætist við nýtt skip í skipaflota FISK Seafood þegar Drangey SK-2 kemur til heimahafnar á Sauðárkróki.

Þann dag kl. 14:00 verður skipinu formlega gefið nafn við hátíðlega athöfn á Sauðárkrókshöfn.

Að lokinni athöfn verður gestum boðið að skoða skipið og þiggja svo kaffiveitingar í tilefni dagsins í skrifstofuhúsnæði FISK Seafood að Háeyri 1.

Allir velkomnir og hlökkum til að sjá ykkur sem flest!

Drangey SK-2 á heimleið

Nýr togari FISK Seafood, Drangey SK-2, hélt af stað heim föstudaginn 4. ágúst. Áætlaður siglingartími í Skagafjörðinn er um hálfur mánuður og því áætluð heimkoma í kringum 18. ágúst.

Skipið var smíðað hjá Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Skrifað var undir samning um smíði á skipinu þann 24. júlí 2014. Skipið var sjósett þann 22. apríl síðastliðinn og afhent formlega þann 26. júlí í Tyrklandi.

Á Sjávarútvegssýningunni í Brussel þann 25. apríl síðastliðinn var skrifað undir samning við Skagann 3X um smíði á vinnslubúnaði á millidekkið á skipinu. Búnaðurinn er ofurkælibúnaður líkt og er um borð í Málmey SK-1.

Drangey er þriðja af fjórum systurskipum sem smíðuð eru hjá Cemre. Hin þrjú skipin, Kaldbakur, Björgúlfur og Björg, fara til Samherja og ÚA. Skipin eru hönnuð af Verkfræðistofunni Skipatækni og Bárði Hafsteinssyni. Skipið er tæknilega fullkomið og við hönnun var lögð áhersla á hagkvæmni í orkunýtingu. Drangey er 62,5 metra langt skip og 13,5 metra breitt. Skipið er með nýstárlegt skrokklag og stórt og áberandi perustefni sem á að tryggja betri siglingareiginleika, meiri stöðugleika og aukna hagkvæmi. Skipið er skráð 2081 brúttótonn, hefur 14 hnúta hámarks siglingarhraða og 40 tonna togkraft. Skipstjóri á skipinu er Snorri Snorrason.

Það eru rúm 44 ár síðan það kom síðast nýsmíðaður togari á Sauðákrók. Það skip hét líka Drangey en bar einkennisstafina SK-1. Það skip kom í fjörðinn frá Japan þann 8. maí 1973. Drangey kemur til með að leysa Klakk SK-5 af hólmi en Klakkur er 40 ára gamalt skip.

Hægt er að fylgjast með ferðum Drangeyjar inni á síðunni Marine Traffic.

Þarna var skipið statt í morgun, á siglingu í Miðjarðarhafinu fyrir utan Alsír í átt að Gíbraltar.

Framkvæmdir hafnar við stækkun á hráefniskæli

Um síðustu helgi hófust framkvæmdir við viðbyggingu við fiskvinnslu FISK Seafood við Eyrarveg 18 á Sauðárkróki. Til stendur að stækka hráefniskæli fyrirtækisins um 280 fm og stækka inngang og starfsmannaaðstöðu um 70 fm, samtals 350 fm. Verktaki er Friðrik Jónsson ehf. Það var verkfræðistofan Stoð ehf. sem sá um hönnun og teikningu á viðbyggingunni. Áætluð verklok eru í haust.

 

Drangey SK2 sjósett í Tyrklandi

Laugardaginn 22 apríl var sjósett í Tyrklandi nýtt skip FISK Seafood ehf, Drangey SK2.

Skipið er smíðað í skipasmíðastöðinni Cemre. Skipið er væntanlegt heim í lok sumars og kemur til með að leysa af hólmi Klakk SK5.

Til að vera viðstaddir sjósetninguna fóru til Tyrklands þeir Jón Eðvald Friðriksson framkvæmdastjóri, Gylfi Guðjónsson útgerðarstjóri, Jón Ingi Sigurðsson tæknistjóri, Bárður Hafsteinsson skipaverkfræðingur og hönnuður skipsins og Árni Sigurðsson fulltrúi stjórnar FISK

sendinefnd FISK

 

 

smellið á myndirnar til að sjá þær í réttri stærð

Vinnsla hefst að nýju

Landað úr Klakknum 22 feb 2017

Landað úr Klakknum 22. febrúar 2017.

Sjómenn samþykktu nýgerða kjarasamninga sunnudaginn 19. febrúar. Það kvöld héldu tvö skipa FISK Seafood, Klakkur SK-5 og Málmey SK-1, til veiða á ný. Frystitogari FISK Seafood, Arnar HU-1, hélt til veiða mánudaginn 20. febrúar.

Í morgun, 22. febrúar, kom svo Klakkur inn til löndunar með um 80 tonn af afla til vinnslu í fiskvinnslunni á Sauðárkróki. Verður það fyrsti fulli vinnsludagurinn í húsinu á þessu ári. Málmey er svo væntanleg inn til löndunar síðar í dag. 

Hólmfríður Sveinsdóttir fær Hvatningarverðlaun FKA

Þann 25. janúar veitti Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA, Hólmfríði Sveinsdóttir Hvatningarverðlaun félagsins. Hólmfríður er framkvæmdastjóri rannsóknar- og þróunarfyrirtækisins Iceprotein og líftæknifyrirtækisins Protis.

Protis setti á markað í febrúar á síðasta ári vörulínu af fæðubótarefnum, Amínó fiskprótín línuna, sem inniheldur lífvirk fiskprótín sem stuðla að bættri heilsu og auknum hreyfanleika.

Í rökstuðningi dómnefndar FKA segir m.a. að „Hólmfríður sé frumkvöðull þegar kemur að nýtingu afurða úr sjávarútvegi, sé aðili að fyrirmyndar samstarfi innan sveitarfélags á landsbyggðinni og milli háskóla- og rannsóknarstofnana með stuðningi atvinnulífsins.“

„Ég er afar þakklát fyrir vinnuna mína þar sem ég tel það forréttindi að starfa við að bæta umgengi við náttúruauðlindir og um leið að skapa þekkingu, verðmæti og sérhæfð störf í byggðarlaginu mínu, Skagafirði.

Það eru líka forréttindi að stunda nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi þar sem mikil hefð er fyrir samstarfi og stuðningi við nýsköpun enda eru menn þar á bæ meðvitaðir um hvaða þýðingu nýsköpun hefur fyrir framgang greinarinnar,“ sagði Hólmfríður í þakkarræðu sinni. Auk þess sem hún þakkaði hún Jóni Eðvald Friðrikssyni, framkvæmdastjóra FISK Seafood, sérstaklega fyrir að hafa trú á störfum hennar.

Við óskum Hólmfríði hjartanlega til hamingju með verðlaunin og viðurkenninguna.