Saga

Saga FISK Seafood ehf

Þann 1.janúar 2005 sameinaðist Skagstrendingur hf. Fiskiðjunni Skagfirðingi hf. og var nafni félagsins breytt í FISK Seafood , en í janúar 2004 keypti FISK eignarhaldsfélag, sem var í 50% eigu Fiskiðjunnar Skagfirðings hf, allt hlutafé í Skagstrendingi hf.

Á Þorláksmessu 1955 var Fiskiðja Sauðárkróks stofnuð og voru upphaflegir eigendur hennar Kaupfélag Skagfirðinga og Sauðárkrókskaupstaður. Árið 1968 var Útgerðarfélag Skagfirðinga stofnað með þátttöku bæjarfélagsins, Kaupfélagsins, Fiskiðju Sauðárkróks og Skjaldar, auk fjölda einstaklinga. Síðan var rekstur Útgerðarfélagsins Nafar á Hofsósi sameinaður Útgerðarfélaginu. Skjöldur á Sauðárkróki var stofnaður 11. júní 1968 af fjölda einstaklinga í Skagafirði. Árið 1940, þann 31. mars var Hraðfrystihús Grundarfjarðar stofnað af fjölda einstaklinga í Eyrarsveit á Snæfellsnesi. Skagstrendingur var stofnaður 8. desember árið 1968 af Höfðahreppi og íbúum í hreppnum, en alls skráðu sig 112 aðilar fyrir hlutafé. Þar af var Höfðahreppur með tæplega helming upphæðarinnar, en flest heimili lögðu eitthvað af mörkum í hlutafé.

Hlutafélagið Skagfirðingur var stofnað 31. október 1989. Nafni þess var breytt í Fiskiðjan Skagfirðingur í maí 1995.

Fisk Seafood hf. hefur orðið til með kaupum á, eða samruna nokkurra félaga á umliðnum áratugum. Þessi félög eru: Fiskiðja Sauðárkróks hf, Hraðfrystihús Grundarfjarðar hf, Útgerðarfélag Skagfirðinga hf, Skjöldur hf. og Skagstrendingur hf.