Hólmfríður Sveinsdóttir fær Hvatningarverðlaun FKA

Þann 25. janúar veitti Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA, Hólmfríði Sveinsdóttir Hvatningarverðlaun félagsins. Hólmfríður er framkvæmdastjóri rannsóknar- og þróunarfyrirtækisins Iceprotein og líftæknifyrirtækisins Protis.

Protis setti á markað í febrúar á síðasta ári vörulínu af fæðubótarefnum, Amínó fiskprótín línuna, sem inniheldur lífvirk fiskprótín sem stuðla að bættri heilsu og auknum hreyfanleika.

Í rökstuðningi dómnefndar FKA segir m.a. að „Hólmfríður sé frumkvöðull þegar kemur að nýtingu afurða úr sjávarútvegi, sé aðili að fyrirmyndar samstarfi innan sveitarfélags á landsbyggðinni og milli háskóla- og rannsóknarstofnana með stuðningi atvinnulífsins.“

„Ég er afar þakklát fyrir vinnuna mína þar sem ég tel það forréttindi að starfa við að bæta umgengi við náttúruauðlindir og um leið að skapa þekkingu, verðmæti og sérhæfð störf í byggðarlaginu mínu, Skagafirði.

Það eru líka forréttindi að stunda nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi þar sem mikil hefð er fyrir samstarfi og stuðningi við nýsköpun enda eru menn þar á bæ meðvitaðir um hvaða þýðingu nýsköpun hefur fyrir framgang greinarinnar,“ sagði Hólmfríður í þakkarræðu sinni. Auk þess sem hún þakkaði hún Jóni Eðvald Friðrikssyni, framkvæmdastjóra FISK Seafood, sérstaklega fyrir að hafa trú á störfum hennar.

Við óskum Hólmfríði hjartanlega til hamingju með verðlaunin og viðurkenninguna.