Fréttir þann: 4 janúar, 2013

FISK gefur fólksflutningabifreið

Í gær afhenti FISK Seafood ehf. Ungmannafélaginu Tindastóli að gjöf fólkflutningabifreið af gerðinni Mercedes-Benz.  Í ávarpi sínu við afhendinguna sagði Jón Eðvald Friðriksson framkvæmdastjóri FISK m.a.

Hvatinn af þessari gjöf er umræðan um stór aukinn ferðakostnað íþróttafélaga á landsbyggðinni vegna hækkandi olíuverðs  og sífellt aukinnar skattlagningar ríkissins á hvern olíulíter og eða ekinn kílómeter. Þessi aukni kostnaður leggst þungt á alla þá sem stunda íþróttir, unga sem aldna og alveg sérstaklega fjölskyldur þar sem börnin eitt eða fleiri stunda hinar ýmsu íþróttir, sem aftur kalla á ferðalög fram og  aftur  um allt land.

  Öryggismálin hafa verið ofarlega á baugi hjá FISK á síðustu misserum og ýmislegt verið gert sem talið er að geti minnkað líkurnar á alvarlegum slysum. Hið sama á við um starfssemi Ungmannafélagsins Tindastóls ,öryggismálin eiga alltaf að vera í umræðunni, ekki bara á æfinga-eða  keppnisstað heldur ekki síður á ferðalögum til og frá keppni. Ég vona og veit  að þessi nýja og öfluga bifreið verður  hluti af því að bæta aðbúnað og öryggi íþróttaiðkenda á vegum Tindastóls í náinni framtíð.

Þátttaka barna og unglinga í íþróttastarfi er í mínum huga einhver besta forvörn gegn vímuefnum , sem hugsast getur. Þessi gjöf er m.a. hugsuð til þess að minnka kostnað barna og unglinga við þátttöku í íþróttum og til þess að fleiri getið tekið þátt en annars væri. Jafnframt er þessi gjöf viðurkenning á miklu og öflugu   unglinga- og íþróttastarfi á vegum Ungmannafélagsins Tindastóls í samfélaginu okkar  og ekki síður hvatning til Ungmannafélagsins Tindastóls  að gera enn betur á því sviði  í framtíðinni.