Fréttir þann: 2 nóvember, 2012

Veiðigjöld – óréttlátur ofurskattur.

 

Umræðan um álagningu  veiðigjalda  er mjög villandi. Almenningi er talin trú um , að um óverulega skattlagningu sé að ræða, sem komi nánast ekki við neinn  sem við greinina starfar, nema þá eigendur fyrirtækjanna , sem geti þá minnkað arðgreiðsur til sín á móti.  Skatturinn muni ekki hafa nein áhrif á fjölda þeirra fyrirtækja sem starfa í sjávarútvegi og fráleitt að kalla þetta landsbyggðarskatt.

Sannleikurinn er hins vegar allt annar. Skatturinn nú tekur ekki mið af afkomu hvers fyrirtækis,heldur afkomu atvinnugreinarinnar eins og hún var á árinu 2010 . Í ár leggst hann á hvert þorskígildiskíló sem viðkomandi fyrirtæki hefur yfir að ráða og er almenna gjaldið kr. 9.50 og sérstaka gjaldið kr. 23.20 eða samtals kr.  32.70 á hvert þorskígildiskíló. Þorskígildiskílóin hafa ekkert með afkomu veiða og vinnslu í viðkomandi tegund að gera  og eru því fráleitur stofn og óréttlátur  til útreiknings á slíkum skatti. Svo dæmi sé tekið þarf að greiða ríkissjóði tæpa 81 krónu á kíló fyrir leyfið til þess að veiða hvert kíló af grálúðu.  Afkoma fiskvinnslu í landinu hefur áhrif á fjárhæð veiðigjaldsins, en útgerðin er látin greiða sama gjald  óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki  er bara í útgerð eða í hvoru tveggja. Þeir aðilar sem einungis stunda útgerð standa  því mun lakar að vígi , sem aftur mun leiða til fækkunar þeirra fyrirtækja , sérstaklega smærri aðila  . Stærri fyrirtækin geta frekar brugðist við hækkandi skattaálögum t.d. með fækkun skipa í rekstri, sem aftur mun leiða til fækkunar sjómanna og þjónustustarfa tengdum útgerðinni.

Á síðasta fiskveiðiári greiddi FISK um 170 milljónir í veiðigjöld, en áætlanir þessa árs gera ráð fyrir að sú fjárhæð verði rúmmlega 700 milljónir eða um 530 milljóna hækkun á milli ára. Þessar 530 milljónir eru að hverfa úr þessu litla samfélagi og miðað við niðurskurðaráform stjórnvalda í rekstri ríkisstofnana í Skagafirði er ljóst að minna en ekkert af þessum 530 milljónum skilar sér til baka . Viðbótarskattlagning upp á 530 milljónir  dregur úr getu fyrirtækisins  til  fjárfestinga,þróunar og framlaga til ýmissra samfélagsverkefna og auk þess munu  útsvarstekjur sveitarfélagsins lækka  verulega.

Með þessari óréttlátu ofurskattlagningu  er verið að mergsjúga sjávarútveginn og þar með  atvinnulífið  á landsbyggðinni   , 80-90% af kvótanum er vistaður úti  á landi og  því um hreinan landsbyggðarskatt að ræða.. Skattheimtan í formi veiðigjalds  nú er aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal þegar lögin um veiðigjöld hafa tekið gildi að fullu.

Ekki einasta mun þessi galna  leið kalla á mikla uppstokkun í sjávarútvegi og atvinnulífi landsbyggðarinnar, heldur stór skaða samkeppnishæfni islensks sjávarútvegs í náinni framtíð  með ófyrirsjávanlegum afleiðingum fyrir þjóðarbúið  í heild.

Jón Eðvald Friðriksson

Framkvæmdastjóri FISK-Seafood ehf.