Fréttir þann: 18 maí, 2012

,,Sumarið er tíminn“

Erindi Jóns E Friðrikssonar framkvæmdastjóra FISK Seafood ehf á opnum degi í Verinu 16.05.2012

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ágætu gestir.

Fyrir um 10 árum sátum við Skúli Skúlason, þá skólastjóri Bændaskólans á Hólum, saman og ræddum um hvað helst mætti gera til þess að treysta byggð í Skagafirði til framtíðar.  Við vorum sammála um að mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni væri að efla skólastarf og ýmsar rannsóknir m.a. tengdar fiskeldi. Hólaskóli hafði náð langt í rannsóknum og kynbótum á bleikju og því rökrétt að halda áfram á sömu braut, en þar sem Hólar hafa ekki aðgang að sjó, þyrfti slík aðstaða fyrir fisk sem lifði í sjó að byggjast upp á öðrum stað.

Miðað við aðstæður og viðhorf á þeim tíma töldum við einu færu leiðina að FISK byggði upp nauðsynlega aðstöðu og skólinn fengi afnot af henni endurgjaldslaust fyrstu árin þar til opinberir aðilar sýndu málinu aukin skilning. Niðurstaðan var sú að FISK endurbyggði gamalt frystihús á Sauðárkróki, sem kostaði fyrirtækið einhverja milljónatugi á þeim tíma. Strax í upphafi var lagt upp með að fá fleiri aðila inn í húsið  til þess að  skapa vettvang til frekari sóknar á hinum ýmsu sviðum í nánu samstarfi við atvinnufyrirtækin. Hólaskóli flutti hér inn á árinu 2004 og voru í fyrstu svolítið einir í allt of stóru húsi, en áformin voru skýr um að fá til liðs við okkur fleiri aðila og það tókst þó hægt gengi  í fyrstu.

Í heildina má segja að þetta verkefni hafi tekist vel og fyllilega eins og að var stefnt. Bændaskólinn á Hólum er orðinn að háskóla og hér eru starfandi ýmsir aðilar, sem tengjast menntun, rannsóknum og þróun og í nánu samstarfi við atvinnufyrirtækin í sveitarfélaginu og í raun á landinu öllu. Árleg framlög Sjávarútvegsráðuneytisins til þessarar starfsemi og styrkveitingar AVS –sjóðsins til einstakra verkefna hafa skipt sköpun um þessa jákvæðu þróun.

Þegar  húsnæðið undir þessa starfsemina var sprungið, kom upp spurning hvort FISK væri tilbúið að stækka aðstöðuna með nýbyggingu, þrátt fyrir lítil skil á leigutekjum. Niðurstaðan var sú að byggja þriggja hæða hús, um 750 fermetra í heildina, við hliðina á eldri aðstöðu. Til þess að leggja enn frekari áherslu á mikilvægi samtengingar  atvinnulífs, skóla og rannsóknaraðila flutti FISK með höfuðstöðvar sínar á efstu hæð í nýbyggingunni.  Til áréttingar mikilvægi þessarar tengingar var í framhaldinu farið fram á við skólameistara Fjölbrautarskólans á Sauðárkróki, Ingileifi Oddsdóttur, að hún settist í stjórn FISK, sem og hún gerði.  Frábærar  aðstæður eru því hér til staðar  til þess að byggja á öflugt og farsælt samstarf atvinnulífs, skóla og rannsóknaraðila til hagsbóta fyrir alla þessa aðila.

Hrunið 2008 setti mark á hvernig  staðið var  að þessari nýju viðbyggingu. Við reiknuðum með að það tæki okkur 2-3 ár að rétta úr kútnum og öll áform varðandi bygginguna tóku mið af því. Stoð verkfærðistofa á Sauðárkróki fékk góðan tíma til þess að hanna bygginguna, húsið er steinsteypt til þess að spara sem mestan gjaldeyri,verktakar nánast allir úr Skagafirði og húsgögnin sem FISK keypti eru öll smíðuð eða sett saman af innlendum aðilum. Ekki verður séð annað en að í heildina hafi tekist vel til og allt handverk til fyrirmyndar.

Frá hruni hefur sjávarútvegurinn skilað ágætri framlegð, sem hefur að stærstum hluta farið í að lækka skuldir og treysta þar með grunn fyrirtækjanna til framtíðar. Afurðaverð hafa almennt verið há, en vegna efnahagsörðugleika eru þó blikur  á lofti á mikilvægum mörkuðum svo sem í sunnanverðri  og raunar Evrópu allri.  Þessir suðrænu markaðir eru mjög mikilvægir einkum varðandi  þorskafurðir og því áríðandi  að fyrirtækin geti sinnt þessum mörkuðum, þó að á móti blási og þau þurfi að taka meiri áhættu í þessum viðskiptum heldur en undanfarin ár. Ef við hopum af þessum mörkuðum vegna stundarhagsmuna er óvíst að við komumst inn á þá  að nýju.

Hagstæðar aðstæður í sjávarútveginum hafa hjálpað til að halda þokkalegu atvinnustigi víða úti á landi, þrátt fyrir niðurskurð ríkisins á hinum ýmsu sviðum. Tekjustreymi skatta í þjóðfélaginu er rangt í dag, þar sem einungis önnur hver skattkróna af landsbyggðinni skilar sér aftur út á land, en hin verður eftir á höfðuborgarsvæðinu.  Verkefni stjórnmálamanna eru því að minnka þennan mun eða jafna. Samkeppnisstaða atvinnulífs á landsbyggðinni hefur verið að versna að undanförnu m.a. vegna hækkandi eldsneytisverðs , sem snýr bæði  að aðföngum  og framleiðsluvörum svo og ýmissra annarra kostnaðarliða.

Mikil offjárfesting  átti sér í íbúða- og atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í góðærinu, sem  nú þarf að skrifa niður að stórum hluta.  Niðurgreitt íbúða- og atvinnuhúsnæði verður því  í boði  á höfuðborgarsvæðinu næstu árin og skekkir þar með samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar hvað varðar íbúa- og atvinnuþróun.

Atvinnulíf á landsbyggðinni er því  brotthætt um þessar mundir og því þarf að fara mjög varlega í íþyngjandi  aðgerðir gagnvart atvinnulífinu og ekki síst sjávarútvegsfyrirtækjunum, þar sem þau eru oft burðarásarnir í viðkomandi byggðarlagi og víða einu fyrirtækin sem lúta stjórn heimamanna. Þessi fyrirtæki kaupa mikla þjónustu á viðkomandi svæði, þannig að neyðist þau til þess að taka mikið til í sínum rekstri, kemur það við mjög marga þjónustuaðila.

Ég vil gefa mér að flestir landsmenn vilji hafa  landið nánast allt í byggð. Öflugur sjávarútvegur er grunn forsenda þess að svo megi verða .  Ljóst er að sjávarútvegurinn þarf vinnufrið og sýn til framtíðar. Stjórnmálamenn margir hverjir beita sér þessa dagana fyrir því að finna leið til þess  að erlendur aðili geti fjárfest upp á reginfjöllum fyrir um 16 milljarða. Þessi aðili þarf að fá tryggingu til framtíðar og þá er verið að ræða um 40 eða 99 ár . Þessir sömu stjórnmálamenn hafa ekki skilning á því að ef FISK ætlar að endurnýja þau þrjú frystiskip sem fyrirtækið á, sem er fjárfesting upp á sambærilega fjárhæð, eða 16- 20 milljarða, þarf fyrirtækið að hafa eitthvað í höndunum  hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Við þurfum nýja nálgun varðandi sjávarútveginn.

Við núverandi þjóðfélagsaðstæður þurfum við að setjast niður og mynda okkur skoðun á því hvernig við vildum sjá Íslenskan sjávarútveg og starfsemi tengda honum  næstu  15 – 30 árin og hvað þarf til að koma svo megi verða.  Mér virðast næg verkefni framundan ef rétt er á málum haldið. Endurnýja þarf fiskiskipaflotann meira og minna, sem kallar á nýja hönnun, tæknivæðingu, orkunýtingu, endurmat á veiðarfærum og fleira. Hið sama má segja varðandi matvælavinnslurnar í landi, þar þarf að endurnýja og þróa búnað á hinum ýmsu sviðum. Varðandi sölu og markaðsmálin er hið sama upp á teningnum, þar eru óþrjótandi verkefni fyrir starfsamar hendur. Til viðbótar öllu þessu kemur síðan ýmis konar úrvinnsla aukaafurða, próteinframleiðsla og rannsóknir, þróun og framleiðsla á líftæknisviði. Til þess  að ná sem bestum árangri þarf að endurmeta fyrirkomulag  og endurskoða alla menntun og nám er tengjast sjávarútvegi og matvælavinnslu. Sjávarútvegurinn þarf á næstu árum að verja miklum fjármunum til rannsókna, nýsköpunar, þróunar og markaðs- og sölumála og það þarf að hafa það hugfast þegar rætt er um skattlagningu greinarinnar.

Tækifærin á þessu sviði eru því mörg og spennandi og ekki síst fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni.  Nú er raunverulegt tækifæri til þess  að snúa frá neikvæðri byggðaþróun síðustu áratuga og hefja fjárfestingar  í þessum  arðsömu  verkefnum, sem munu  skila  sér í auknum gjaldeyristekjum og bættum hag íbúa landsbyggðarinnar og þjóðarinnar allrar.

Stjórnvöld og atvinnugreinin þurfa að vinna þétt saman til þess að takast á við þessi margvíslegu verkefni. Finna þarf leiðir til þess að bæta samkeppnisstöðu matvælaframleiðslunnar og tengdra greina gagnvart erlendum keppinautum og búa svo um hnúta að auðlindir landsins verði nýttar á sem bestan hátt landi og þjóð til heilla. Við eigum að nýta þann mikla styrk og þá miklu þekkingu sem íslenskur sjávarútvegur býr yfir í dag, til þess að takast á við verkefnin framundan.   Mín trú er sú að íslenskur sjávarútvegur og tengdar greinar geti um ókomna tíð verið ein af grunn undirstöðum íslensks þjóðfélags. Til að það megi takast sem best, þurfa atvinnugreinin og stjórnvöld að ná saman og skapa starfsumhverfi sem er í senn aðlaðandi, hvetjandi og áhugavert fyrir þá sem starfa í greininni og ekki síður til þess að fá til liðs við okkur ungt og vel menntað fólk á hinum ýmsu sviðum til þess að takast á við ný og spennandi verkefni framtíðarinnar.

Á Alþingi ræða menn þessa dagana frumvörp  um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.  Ljóst er að frumvörpin eins og þau liggja fyrir skapa enga sátt um atvinnugreinina í þjóðfélaginu ,setja mörg sjávarútvegsfyrirtæki í þrot og kalla á mikla óvissu fyrir fjölskyldur þúsunda starfsmanna sjávarútvegsfyrirtækja og þjónustufyrirtækja tengdum þeim.  Síðast en ekki síst rýra fram komnar tillögur samkeppnishæfni  íslensks  sjávarútvegs til framtíðar. Ég vil því nota þetta tækifæri og skora á ráðherra sjávarútvegsmála að nýta sinn pólitíska styrk og þekkingu á þessum málum til þess að fresta afgreiðslu frumvarpanna.  Einhvers staðar segir  „ sumarið er tíminn“ og það á við í þessu tilfelli. Ég tel eðlilegt að ráðherra nýti sumarið til þess að fá atvinnugreinina  til liðs við sig og gerðar verði nauðsynlegar breytingar á frumvörpunum og Alþingi geti á hausti komanda afgreitt þau í sátt, með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í huga í bráð og lengd.

Ný heimsíða

FISK Seafood hefur uppfært heimasíðu sína í nýtt viðmót í kerfinu WordPress og er síðan unnin af Tengli ehf og vistuð hjá Fjölnet hf.